Fjöruferð Norðurbæjar

Norðurbær fór í fjöruferð í blíðskaparveðri nú rétt fyrir sumarfrí, miðvikudaginn 6. júlí. Það var mikil tilhlökkun í börnunum og mikil gleði að leggja af stað. Við löbbuðum Hofsvallagötuna, gengum framhjá Melabúðinni, Kaffi Vest, gengum varlega yfir nokkrar gangbrautir og alveg niður á Ægisíðu. Þegar þangað var komið var hlaupið af stað á grasinu að styttunni Björgun. Það var búið að fjara út og því gaman að skoða í fjörunni. Mest var þó gaman að henda steinum í sjóinn og klifra í styttunni. Á leiðinni heim voru margir orðnir þreyttir og svangir. Þá var nú gott að koma heim í leikskólann og borða fljótlega og fá að hvíla sig. Sumir sofnuðu á leiðinni á koddann. Þetta var skemmtileg ferð og gaman að gera svona lagað með stóru krökkunum okkar á Norðurbæ. 

 

Fleiri myndir má finna á myndasíðu: 2015/2016 - Norðurbær - Júlí - Fjöruferð

júlí1 027júlí1 054júlí1 084

Viðburðaríkur júní

Júní er búinn að vera viðburðaríkur hjá okkur á Vesturborg. Við byrjuðum á að setja niður kartöflur og grænmeti. Svo höfum við verið dugleg að leika okkur úti og gera garðinn fínni og fínni. 

Þriðjudaginn 21. júní kom Brúðubíllinn á sundlaugartúnið og sameinuðumst við leikskólunum í hverfinu að horfa á þá skemmtun. Við skemmtum okkur mjög vel og voru öll börnin til fyrirmyndar. Vesturbæjarbörnin eru fyrirmyndarborgarar sem mjög gaman er að vera með. 

Föstudaginn 24. júní héldum við okkar árlegu Sumarhátíð. Þá var sko glatt á hjalla. Foreldrar komu seinni partinn og fóru með börnum sínum og kennurum í skrúðgöngu um hverfið með skemmtilega lúðrasveit í broddi fylkingar. Þegar komið var aftur á Vesturborg beið okkar engin önnur en Lína langsokkur uppi á þaki! Hún gladdi börnin með söng, töfrabrögðum og fíflalátum. Öll börn sem vildu fengu mynd með sér og Línu. Grillaðar voru pylsur sem runnu ljúft niður. Afrakstur vetrarins var sýndur í salnum og á deildum. 

Nú eru bara nokkrir dagar þangað til við förum í sumarfrí en síðasti opnunardagurinn er fimmtudagurinn 7. júlí.

júní3 136sumarhátið 102 Medium

Allir hjálpast að

Hér á Vesturborg fara allir í öll störf. Íris leikskólastjóri stökk út á sláttuvélina þegar sólin sýndi sig. Það má sjá að hún kann ýmislegt fyrir sér í garðstörfunum. Við öll á Vesturborg gerum allt til að gera umhverfið okkar fallegra svo börnin fái að njóta sín og leika sér á fallegum stað. júní1 099


Foreldravefur


Menntaáætlun Evrópusambandsins